140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi fram í þessari umræðu að ég spurði að því hvers vegna í ósköpunum þessar fimm spurningar í tillögulið tvö hafi dottið inn í þetta þingskjal en ekki eitthvað annað, eins og t.d. fullveldisframsal og ákvæði um forseta Íslands. En þegar maður skoðar stefnu flokkanna sem eru nú í ríkisstjórn og áherslur þeirra í kosningabaráttu undanfarinna ára get ég alveg útskýrt út af hverju þeir fimm liðir urðu fyrir valinu.

Náttúruauðlindir lýstar þjóðareign. Þetta hefur verið stefna kommúnista á Íslandi um langt árabil (Gripið fram í.) og sá álagspunktur sem vinstri velferðarstjórnin hélt að mundi koma Sjálfstæðisflokknum í uppnám. Þess vegna er þetta haft þarna nr. eitt.

Ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er. Það er líka stefna Vinstri grænna að þjóðkirkjan verði ekki þjóðkirkja, það er stefnumál þeirra.

Ef við förum í punkt þrjú og fjögur, persónukjör í kosningum og atkvæðisvægi alls staðar jafnt á landinu, þá er þetta beinlínis í stefnuskrá Samfylkingarinnar. Og þetta ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, þetta er úr stefnuskrá Hreyfingarinnar.

Við höfum hér fimm spurningar, moðsuðu frá þeim flokkum sem standa að þessari þingsályktunartillögu; stefnuskrá Vinstri grænna, stefnuskrá Samfylkingarinnar og stefnuskrá Hreyfingarinnar. Svo mikil er sú lýðræðisást sem finna má í þessari þingsályktunartillögu. Það er ekkert verið að kanna vilja þjóðarinnar. Þetta er bara þessi stefna sem birtist hér.

Ég vil til dæmis spyrja þingmanninn: Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. (Forseti hringir.) Það er ekkert persónukjör (Forseti hringir.) í kosningum til Alþingis. (Forseti hringir.) Hvernig er hægt að spyrja svona?