140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti sérstaklega athyglisvert að heyra útleggingar hv. þingmanns á tilurð þessara spurninga. Ég verð að segja að ég hef ekki heyrt betri kenningu en þá sem þingmaðurinn leggur fram þannig að ég þakka fyrir þá yfirferð.

En varðandi seinasta punktinn sem hv. þingmaður nefndi, um persónukjörið, er það nefnilega mjög athyglisvert og rétt sem þingmaðurinn bendir á að persónukjör er ekki notað í miklum mæli hér. Hvenær var það notað? Jú, einmitt í stjórnlagaþingskosningunum sem voru svo úrskurðaðar ólöglegar. Það er öll reynslan af því. En það rifjar líka upp að á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar voru einmitt boðuð frumvörp um persónukjör, bæði til sveitarstjórna og Alþingis, og það bólar ekkert á þeim. Það er kannski spurningin hvort ekki hefði verið ódýrara fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera bara Gallup-könnun á því hvort stemning væri fyrir þeim frumvörpum í staðinn fyrir að skjóta því inn í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu sem þau eru með á dagskrá.

En það er líka eitt, og ég hef ekki komið því að í ræðum mínum hér í dag, og það er að tillögur stjórnlagaráðs skulu lagðar fram en síðan er gefið tilefni til að endurskoða þær með tilliti til alþjóðasamninga og laga. Við höfum í raun ekki tekið gagnrýna umræðu um þessar tillögur. Það er margt þar ágætt en svo eru hlutir þar inni, eins og það að hverjum einstaklingi sé tryggður meðfæddur réttur til lífs. Það er rosalega sterk krafa að setja í stjórnarskrá. Hv. þm. Pétur H. Blöndal (Forseti hringir.) komst kannski næst því þegar hann sagði að þetta væri það sem hann ætlaði að krefjast á dánarbeðinu, að það væri jú skrifað í stjórnarskrána (Forseti hringir.) að hann ætti meðfæddan rétt til lífs.