140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum að stjórnarskráin er orðin að pólitísku bitbeini. Það er rétt að deilt hefur verið um mismunandi efnisatriði í stjórnarskránni gegnum tíðina en það sem hefur alltaf legið til grundvallar breytingum á stjórnarskrá er að þær séu gerðar í sátt á milli stjórnmálaflokka og það ferli hefur mistekist hér — í rauninni ekki mistekist, það hefur ekki einu sinni reynt á það. Sú aðferð var aldrei reynd. Eins og margoft hefur verið bent á í dag þá hefur ekki verið látið reyna á það hvort við gætum sest niður og fundið sameiginlegan flöt á því að breyta stjórnarskránni.

Á það var bent og það rifjað upp í blaðagrein af hv. fyrrverandi þingmanni Þorsteini Pálssyni að árið 2005 fóru Samfylkingin og Vinstri grænir, þá í stjórnarandstöðu, fram á það í stjórnarskrárnefnd að fá neitunarvald í nefndinni. Þáverandi formaður stjórnarskrárnefndar, hv. fyrrverandi þingmaður Jón Kristjánsson, féllst á það. Hann féllst á það að veita minni hlutanum neitunarvald í þessari nefnd. Hvað var verið að sýna fram á með því? Það var verið að sýna fram á að það væri ekki ætlun meiri hlutans að valta yfir minni hlutann, en það er nákvæmlega það sem búið er að gera hér frá fyrsta degi. Meiri hlutinn hefur valtað yfir minni hlutann og er núna að reyna að knýja fram illa ígrundaða þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að setjast niður og vinna sameiginlega úr efnisatriðum þessa máls. (Forseti hringir.) Það er miður.