140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög gott svar og sýnir hvað Alþingi er á hættulegri braut með því að leggja þetta fram, þ.e. sá meiri hluti sem telur sig starfa hér í þinginu með fulltingi Hreyfingarinnar í þessu máli. Í fyrsta lagi leggur stjórnlagaráð, eins og ég fór yfir áðan, ekki vinnu í að skilgreina hvaða þjóðareign þýðir samkvæmt íslenskri tungu og íslenskri lögfræði. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar étur þetta hrátt upp eftir stjórnlagaráði og setur inn í það þingskjal sem hér er til umræðu og ætlar að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki til túlkun á hugtakinu þjóðareign. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, eins og ég hef farið yfir áður, en til þess eins fallin að halda áfram með þetta mál í ófriði við þingmennina og þjóðina í stað þess að velja friðinn. Þessi vinnubrögð eru hvorki sæmandi Alþingi né boðleg þjóðinni.