140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar og er þar til dæmis sammála röksemdafærslu John Lockes um hvernig eignarréttur verður til, nýtingarsögunni að baki auðlindinni, að þeir sem þróa auðlindina, lækka nýtingarkostnaðinn og auka verðmætið myndi grundvöll eignarréttindanna. Þess vegna er ég ósammála hv. þingmanni um að sérstakt réttlæti sé fólgið í því að taka auðlindir og dreifa þeim án þess að líta til þeirrar sögu. Til dæmis er ég þeirrar skoðunar að þar sem nýtingarsaga á orkuauðlindum á Íslandi er fyrst og síðast í höndum hins opinbera sé eðlilegt að skoða þær lausnir sem hv. þingmaður hefur nefnt um dreifingu á arði af slíkri starfsemi. Ég tel aftur á móti að það sé grundvallarmunur á því hvernig staðið hefur verið að þeirri þróun annars vegar og hins vegar til dæmis því hvernig sjávarútvegsauðlindin hefur orðið verðmæt vegna áhættutöku einstaklinga og fyrirtækja þeirra.