140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað hefði verið bragur á því ef í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu hefði fylgt einhvers konar útfærsla og skýringar á því hvers vegna þessar spurningar voru valdar sérstaklega, hvers vegna mikilvægi þeirra var slíkt að þær voru valdar en ekki t.d. spurning sem ég held að hefði þó verið nauðsyn að spyrja um, sem er hvort almenningur á Íslandi vildi áfram halda inni ákvæði 26. gr. núgildandi stjórnarskrár um málskotsrétt forseta, eða ákvæðum eins og þeim sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Það vantar allan rökstuðninginn fyrir þessu, frú forseti. Það vekur upp spurningar um það vinnulag sem hefur ráðið för.

Við vöruðum við því, frú forseti, þegar þetta mál kom fyrst hingað inn að það væri verið að vinna það í kapphlaupi við tímann og það væri ekki boðlegt fyrir Alþingi að fjalla (Forseti hringir.) um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands með þeim hætti sem raun ber vitni.