140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið á margan hátt verið athyglisverð umræða hérna í dag fyrir efnislegar sakir en ekki síður vegna þess að það hefur verið mjög fróðlegt og vakið margar spurningar að líta yfir þann hóp sem ýmist hefur tekið þátt í umræðunni eða ekki tekið þátt í umræðunni. Það vekur auðvitað athygli í þessu sambandi að mjög margir þeirra sem standa að þessu máli, ýmist sem beinir flutningsmenn eða yfirlýstir stuðningsmenn málsins, hafa kosið að leiða umræðuna að mestu hjá sér. Mér sýndist í fljótu bragði þegar ég fór yfir listann yfir þá sem hafa talað hér í dag að þar sjái þess hvergi stað að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi talað og mjög fáir þingmenn Samfylkingarinnar.

Þetta segir mér að það er augljóst mál að ekki fylgir mikill hugur máli þegar kemur að þessu mikla efnisatriði, þessu stóra máli sem við erum að ræða hér í kvöld. Menn tala mikið um að það sé eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar að ljúka þessu og þá hefði maður getað ímyndað sér að umræðan færi þannig fram að hér væru menn að skiptast á skoðunum, annaðhvort um efnisatriði stjórnarskrárinnar eða a.m.k. um efnisatriði þess þingmáls sem liggur fyrir. Það blasir hins vegar við að svo er ekki og þess vegna hefur þetta í rauninni verið slæm umræða því að við höfum ekki fengið neinn díalóg, þ.e. umræður manna á milli þar sem komið hafa fram gagnstæð sjónarmið. Það er auðvitað slæmt þegar við ræðum svo stórt mál.

Það er hins vegar sérstakt áhyggjuefni að eftir þriggja ára yfirlegu sé afraksturinn þetta litla þingskjal upp á rúma blaðsíðu þar sem leitast var við að búa til nokkrar spurningar til að leggja fyrir þjóðina. Þegar við skoðum þetta frá aðferðafræðilegu sjónarhorni blasir við að svo illa hefur tekist til að allir þeir sem hafa skoðað þetta mál ljúka upp einum munni um að þetta standist ekki minnstu kröfur sem hægt er að gera.

Það er t.d. athyglisvert að sjálf landskjörstjórn sér ástæðu til að vekja athygli á því að við erum nýlega búin að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og þeim lögum fylgja lögskýringargögn sem komu fram í frumvarpinu þegar það var lagt fram. Annað verður ekki ráðið af þessum lögskýringargögnum en að þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram séu ekki í samræmi við þau lög sem Alþingi sjálft hefur sett um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er grafalvarlegt mál að menn skuli ekki einu sinni hafa haft þá burði að geta skammlaust komið frá sér spurningum, fáeinum spurningum, til að leggja fyrir þjóðina.

Svo eru þessar spurningar svo forkostulegar að það tekur engu tali. Til dæmis fyrsta spurningin þar sem spurt er um hvort viðkomandi vilji að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp eftir að búið er að yfirfara hana með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Hvað þýðir þetta, að yfirfara hana? Eru menn þá að tala um að það eigi að freista þess að falla frá einhverjum af þessum alþjóðasamningum, að það eigi að freista þess t.d. að gera breytingar á lögunum, eða eru menn að segja að það þurfi ef til vill að gera frekari breytingar á stjórnarskránni? Þetta er allt saman í lausu lofti. Þetta eru nefnilega spurningar sem eru ekki til þess fallnar að veita okkur, sem erum þó stjórnarskrárgjafinn, Alþingi Íslendinga, neina alvöruleiðsögn í því hvernig við eigum að bregðast við. (Utanrrh.: Valgerður sér um það.) „Valgerður sér um það“, segir hæstv. ráðherra.

Ef ég tek síðan fimmtu spurninguna sem landskjörstjórn telur líka að sé svo ógreinileg að hún geti ekki kallað á nein bindandi svör eða leiðbeinandi fyrir Alþingi. Þar er velt upp alls konar hlutfallstölum sem menn eiga að fá að krossa við sem taldar eru koma til greina. Þá spyr ég: Hvaða efnisumræða fór hér fram sem leggur grundvöllinn að þessum tölum, 10%, 15%, 20%? Var leitað einhverrar fyrirmyndar? Er þetta fyrirkomulag í Sviss, eitthvað af þessum tölum eða eitthvað allt annað? Hvað liggur hér til grundvallar? Var þetta bara dregið upp úr hatti hv. þingmanna eða gripu menn þetta bara á lofti af því að mönnum fannst þetta hljóma vel, 10%, 15%, 20%? Af hverju ekki 5%, 25% eða eitthvað allt annað? (Forseti hringir.)

Þetta er allt saman algjörlega órökstutt í þessu skjali af þeim sem hafa talað fyrir þessu máli, þeim örfáu, og hefur þess vegna ekki verið þess valdandi að það hafi skýrt málið, öðru nær.