140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þingmanninum þegar hann kallar eftir að flutningsmenn þessarar tillögu ræði, þótt ekki væri annað, málin við okkur sem höfum áhyggjur af þessu.

Þar sem hv. þingmaður varpar hér fram spurningum, eins og hvernig standi á þessum fimm spurningum í 2. lið, langar mig að benda á að það eru sex flutningsmenn að þessari tillögu. Fjórir koma úr Samfylkingunni, einn úr Hreyfingunni og einn frá Vinstri grænum. Það skýrir kannski fjölda þeirra spurninga sem leggja á fyrir vegna þess að 1. liður kemur beint frá hæstv. forsætisráðherra, að koma tillögum stjórnlagaráðs áfram til þjóðarinnar. Við vitum að þriðja og fjórða spurning, um persónukjör í kosningum og jafnt atkvæði kjósenda á landinu öllu, eru beint upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar og hefur hæstv. forsætisráðherra lagt fram frumvarp á fyrri þingum um að koma því stefnumáli sínu og Samfylkingarinnar til framkvæmda en ekki tekist. Ef skoðaðar eru þær spurningar sem eftir eru er augljóst að spurningin um þjóðkirkjuna kemur frá Vinstri grænum því að eins og flestir vita vilja Vinstri grænir ekki hafa hér þjóðkirkju. Og fimmta spurning í 2. lið kemur beint frá Hreyfingunni þar sem þess er krafist að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti knúið fram atkvæðagreiðslu. Svona skýrt er þetta. En til að æsa upp Sjálfstæðisflokkinn var fyrsta spurning í 2. lið sett inn um að lýsa náttúruauðlindir þjóðarinnar sem þjóðareign. Svona er þetta til komið og ekki hafa fundist nein fleiri rök fyrir því.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þriðju spurningarinnar sem á að leggja fyrir þjóðina um hvort persónukjör í kosningum til Alþingis verði „heimilað í meira mæli en nú er“: (Forseti hringir.) Hefur þingmaðurinn einhvern tíma orðið var við að ástunduð hafi verið persónukjör í alþingiskosningum?