140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru ansi athyglisverðar og fróðlegar skýringar sem hv. þingmaður gaf okkur á því hvers vegna þessar spurningar urðu til. Það sem hv. þingmaður var eiginlega að segja okkur var að tekin hefði verið ákvörðun um að skipta í fjöru, eins og stundum var kallað í gamla daga. Nú hefur það verið gert þannig að hver hefur fengið í hlut sinn nokkuð og getur þá harla glaður unað við.

Mér finnst út af fyrir sig ekki bara merkilegar þær spurningar sem hér eru, mér finnst þögnin eiginlega miklu merkilegri, mér finnst miklu merkilegra það sem við sjáum ekki í þessum spurningum. Það vekur með manni enn fleiri spurningar.

Við vitum að ekki hefði verið til bóta að þessi nefnd hefði reynt að klambra saman fleiri spurningum. Henni tókst að klúðra þessum fimm eða sex spurningum sem lagðar voru fram og það hefði ekki verið á það bætandi að auka við klúðrið með því að bæta við fleiri spurningum. Með öðrum orðum er alveg ljóst að sá hópur þingmanna sem undirbjó þetta þingmál hefur ekki haft vald á því, hefur ekki skilið út á hvað verkefnið gekk, hafði ekki burði til þess að afla sér sérfræðilegs álits hjá þeim sem þekkja til, t.d. hjá þeim sem eru fagmenn í því að búa til svona spurningar, heldur ákvað að skrifa þetta einhvern veginn á hnjám sér, í kjöltu sinni án þess að leita nokkurs staðar svara. Síðan er hópurinn náttúrlega gerður afturreka með málið allt saman. Við sjáum að landskjörstjórn flengir nánast þessa hv. flutningsmenn, sama gerðist með þá sérfræðinga sem voru kallaðir til og svona má áfram tala.

Persónukjör í kosningum til Alþingis — það er alveg rétt, það er ekki til staðar, hins vegar þekkjum við það við undirbúning kosninga að flokkarnir hafa gjarnan viðhaft prófkjör eða eitthvað í þeim dúr. Þessi spurning er náttúrlega rökleysa í sjálfu sér út frá þeirri forsendu sem hv. þingmaður nefnir, fyrir utan að það getur enginn svarað þessu með já-i eða nei-i eins og vakin er (Forseti hringir.) athygli á af landskjörstjórn þegar talað er um að heimila persónukjör „í meira mæli“.