140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er til dæmis ekki sett fram í þessum tillögum ákvæði um forseta Íslands vegna þess að þjóðarsátt hefur myndast um að forseti Íslendinga eigi að hafa þann málskotsrétt sem hann hefur beitt tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá er ég að vísa í tvennar Icesave-kosningar sem sýna það afgerandi að forsetinn verður að hafa þennan málskotsrétt. Á það skal minnast að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem fara fram fyrir tilvísan forsetans eru bindandi þó að við höfum ekki orðið vör við að ríkisstjórnin hafi litið þannig á þær vegna þess að hér þráaðist ríkisstjórnin við að koma Icesave-samningunum og Icesave-skuldinni á herðar Íslendinga. Það eitt er ákveðinn kapítuli út af fyrir sig.

Ég hef gert mitt til að fjölga spurningunum og hef lagt fram breytingartillögu þar sem ég legg til að bætt verði við þriðja liðnum og spurt hvort eigi að halda áfram aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu. Ég hef lagt mitt lóð á vogarskálina til að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar að einhverju leyti þó að mér sé það þvert um geð.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hæstv. utanríkisráðherra ganga akkúrat í salinn þegar þessi breytingartillaga er hér til umræðu.

Ég reyni að gera mitt besta og hlýt að kalla eftir því að þingmenn taki breytingartillögu minni fagnandi því að þegar ESB-tillagan var hér á dagskrá á sínum tíma kom fram tillaga um að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin yrði lögð inn og féllu atkvæði í þingsal þannig að 32 sögðu nei, 30 sögðu já og einn sat hjá. Síðar kom í ljós að (Forseti hringir.) þingmenn voru knúnir til að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni. Það kom í ljós skömmu eftir atkvæðagreiðsluna þannig að nú skal (Forseti hringir.) reyna á það hvort ekki sé kominn nýr þingmeirihluti fyrir málinu.