140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hygg að það sé öllum ljóst sem hafa hlýtt á umræðuna í dag að ekki var vanþörf á að ræða það í fyrsta lagi hvort tilefni væri til að bera undir þjóðina einhverjar spurningar í tengslum við þessa vinnu og í annan stað hvaða spurningar ætti að leggja fyrir þjóðina í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Varðandi fyrra atriðið er ég enn þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að taka það skref á þessum tímapunkti að leita eftir sjónarmiðum hjá þjóðinni. Þá er auðvitað fyrst og fremst til þess að líta að við höfum unnið mikla vinnu á undanförnum árum og við höfum leitað eftir sjónarmiðum hjá þjóðinni um svona áhersluatriði. Þau hafa komið fram á þjóðfundi, þau hafa komið fram í störfum stjórnarskrárnefndar, stjórnlagaráði sem 30 þingmenn kusu og hefur skilað af sér skýrslu, og ekki má undanskilja í þessari upptalningu þá vinnu sem var unnin á fyrri þingum. Þingið, Alþingi í dag, hefur því fullnægjandi gögn og upplýsingar til að demba sér í vinnuna sem ekki enn er hafin vegna þess að meiri hluti nefndarinnar og hugsanlega meiri hluti þingsins telur að enn þurfi að leita eftir sjónarmiðum. Þetta vildi ég sagt hafa um álitaefnið hvort það væri yfir höfuð eitthvert tilefni.

Ef menn telja tilefni til þess að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu verð ég að lýsa mikilli undrun á því að það sé þá gert þannig að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé ekki til þess að útkljá eitt eða neitt. Þannig hefur það verið hjá öðrum þjóðum eins og ég rakti í fyrri ræðu minni í dag, menn hafa framkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslur víða um lönd til þess að útkljá ágreiningsmál, til þess að bera undir þjóðina og fá þjóðina í lið með sér við að komast að einhverri niðurstöðu. En spurningarnar sem búið er að taka saman fyrir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu í þessari þingsályktunartillögu eru ekki þess eðlis.

Ég ætla ekki að nota tíma minn í að rekja hverja og eina spurningu, ég hef að mestu farið yfir þær í fyrri ræðu minni. Þó ætla ég að staldra við fyrstu spurninguna sem lýtur að því að lýsa náttúruauðlindir þjóðareign. Það er talsvert gert úr því í umræðunni hér í dag að það sé mikilvæg spurning og við sjáum það síðan líka í öðru frumvarpi sem er nýkomið fram á þinginu um stjórn fiskveiða að ríkisstjórnin telur þetta eitthvert grundvallarmál í vinnu sinni. Mér finnst ríkja mikill misskilningur um þörfina fyrir þessa spurningu og ég vil því til vitnis vísa til þeirrar skýrslu sem liggur hér fyrir í umræðunni, skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskránni. Þar kemur mjög skýrt fram að frá öllum öðrum flokkum, hygg ég, en Hreyfingunni hafa komið beinlínis fram frumvörp á Alþingi um útfærslu á þessu og fullkominn óþarfi að fara að bera það undir þjóðina á þessum tímapunkti áður en menn hafa talað sig niður á einhverja útfærslu á þeirri grein.

Svo verður að minnast á það, af því að umræðan um þetta vill gjarnan fara inn á þær brautir að rætt er sérstaklega um sjávarútveginn, að í lögum um stjórn fiskveiða eins og þau eru í dag eru nytjastofnar á Íslandsmiðum lýstir sameign íslensku þjóðarinnar. Það þarf ekki annað en að lesa frumvörpin sem legið hafa fyrir, fleiri en eitt, þar sem er í greinargerðum fjallað sérstaklega um það ákvæði til þess að sjá að þetta er algjörlega óumdeilt og fullkominn óþarfi sem verið er að gera núna með öðru frumvarpi í þinginu um stjórn fiskveiða.

Frú forseti. Í lok þessarar umræðu tel ég að það hafi komið afar skýrt fram að það er mikið verk að vinna í þeirri nefnd sem fær málið til frekari umfjöllunar. (Forseti hringir.) Nú hafa þegar komið fram miklar athugasemdir til dæmis frá landskjörstjórn og þó hefur nefndin ekki einu sinni fengið málið til sín til þess að byrja að ræða það. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða og þeirra efasemda sem hér hafa komið fram um tilefni til framkvæmdar þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki síður um þau (Forseti hringir.) efnisatriði sem lagt er til að verði rædd þar.