140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum á þessum langa degi þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Um hana má margt gott segja og margt hefur nytsamlegt komið fram og annað kannski ekki jafnnytsamlegt að mínum smekk (Gripið fram í.) en það er eins og gengur.

Hér hefur verið kvartað yfir að spurningarnar sem lagðar hafa verið fyrir hafi ekki verið ræddar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það hefur legið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að minni hlutinn hefur ekki viljað taka þátt í því starfi sem sýndi sig best í því að minni hlutinn þóttist ekki eiga erindi á fund stjórnlagaráðsins, eins og ég kom að í framsögu minni fyrr í dag. Engin tillaga hefur komið frá minni hlutanum um spurningar sem leggja ætti fyrir en það gefst náttúrlega enn þá tækifæri til þess.

Ég vil upplýsa, virðulegi forseti, að þessar spurningar eru ekki unnar á handahlaupum. Þær hafa verið ræddar við sérfræðinga. Hvað efnið varðar var meðal annars fjallað um þær á nefndum fundum í stjórnlagaráði. Hvað formið varðar, það hvernig spurt er, hefur það auðvitað verið borið undir sérfræðinga í gerð slíkra spurninga. Ég endurtek að auðvitað hefur það verið gert.

Eins og ég sagði áðan hefur umræðan verið fróðleg og hef ég hlustað á hana nánast alla þó að ég hafi neitað mér um að vera í þingsalnum eða hliðarsal allan þann tíma. Umræðan hefur leitt í ljós að ráðlegt gæti verið að breyta orðalagi fyrstu spurningarinnar og, virðulegi forseti, það er ekkert erfitt fyrir mig að leggja það til. Þingsályktunartillaga er rædd í tveimur umræðum og tilgangurinn er einmitt sá að eitthvað megi læra af fyrri umr. Það tel ég mig hafa gert og vonandi fleiri líka. Þá kemur að síðari umr. og þar geta menn lagt það fram sem þeir telja sig hafa lært af þeirri fyrri.

Umræðan hefur líka sýnt mér að skynsamlegt gæti verið að taka af vafa um fyrstu spurningu í 2. lið, um náttúruauðlindir, og segja það sem rétt er og ég gat um í framsögu minni að auðvitað er ekki átt við að náttúruauðlindir sem eru í einkaeign verði friðlýstar. Ég þykist samt ekki viss um að slík setning, þ.e. að ekki sé átt við náttúruauðlindir í einkaeign, muni skýra málið fyrir öllum en látum það gott heita, ég get vel haft rangt fyrir mér í því.

Að lokum, virðulegi forseti, verður öflug kynning áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Það er einmitt forsenda þess að þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni geti tekið upplýsta ákvörðun. Ég vil endurtaka að auðvitað verður lögð áhersla á öfluga og góða kynningu á málefninu áður en gengið verður til kosninga.

Að lokum þakka ég fyrir góðar umræður í dag.