140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég geri ekki athugasemdir við að þingmenn vilji fá atkvæðagreiðslu um að málið gangi til nefndar, gott og vel. Ég kem hér til að tala um fundarstjórn forseta og ég vil fá skýringu á því af hverju ekki er skýrt verklag um hvað gera á samkvæmt hefðum og venjum þegar farið er fram á atkvæðagreiðslu í málum.

Það vill svo til að fyrir tilviljun heyrði ég frá samþingmanni að hér væri atkvæðagreiðsla sem honum bar engin skylda til að segja mér frá. Ég þurfti að fara fram á það sem þingmaður að fá senda formlega tilkynningu frá þinginu. Ég er utan flokka, ég starfa ekki á vegum neins þeirra þingflokka sem hér eru, ég vil fá tilkynningu frá þinginu þegar atkvæðagreiðsla er á dagskrá.

Mér hefur verið sagt að það sé einhver hefð fyrir því í þinginu, óskrifuð regla, að þingflokksformenn ákveði hvort sendar séu út tilkynningar á þingmenn þingflokkanna. (Forseti hringir.) Í samræmi við hvað í stjórnarskránni er það? Eru menn hér ekki á sínum eigin forsendum, á forsendum sinnar eigin sannfæringar? Eiga menn þá ekki að fá tilkynningu (Forseti hringir.) um það þegar atkvæðagreiðsla er á dagskrá? Hvað eiga þingflokksformenn með að vera að krukka í það?