140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[02:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason komst ágætlega að orði þegar hann talaði um símaat en ég bað um orðið öðru sinni til að taka sérstaklega undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni þegar hann ræðir um hvaða möguleika þingmenn hafa til að mæta til atkvæðagreiðslu. Til að þeir eigi kost á því að koma til atkvæðagreiðslu þegar boðað er til hennar með engum fyrirvara um miðja nótt þurfa þeir að vita um hana.

Það er bæði lýðræðislegur réttur þingmanna og um leið lagaleg skylda þeirra að taka þátt í atkvæðagreiðslum. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Það er mjög sérkennilegt ef þær vinnureglur eru hafðar að þingmönnum sé ekki gerð grein fyrir því með skilaboðum að fram eigi að fara atkvæðagreiðsla, á óhefðbundnum tíma getum við sagt og sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í dagskrá fundarins. Það er sjálfsögð kurteisi að gefa mönnum þá eitthvert ráðrúm til að koma í hús (Forseti hringir.) til að taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu en það var ekki gert og það er í boði Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst í kvöld. (Forseti hringir.) Hafi hann skömm fyrir.