140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[02:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að setja þetta í rétt ljós. Sjálfstæðismenn vilja með öllum brögðum koma í veg fyrir að þingsályktunartillagan komist í umfjöllun hjá nefnd á morgun. Til þess beittu þeir því ráði að kalla til atkvæðagreiðslu upp úr miðnætti í kvöld.

Eins og ég hef áður rakið náði ég ekki með nokkru móti sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar að boða til mín alla mína 20 þingmenn sökum þess að fjölmargir þeirra eru erlendis og hafa verið paraðir út á móti þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Sömuleiðis gat ég ekki með fimm mínútna fyrirvara boðað þingmenn sem voru komnir heim til sín á Suðurnesin eða á Suðurlandið. Þetta vissi formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og með þessum klækjabrögðum vildi hann beita sér fyrir því að ekki væri hægt að framkvæma atkvæðagreiðsluna í kvöld til að vísa málinu til nefndar. Það er sannleikurinn í málinu. Með klækjabrögðum ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að koma í veg fyrir (Gripið fram í.) að stjórnarskrármálið gangi til nefndar til vandlegrar íhugunar og umfjöllunar svo málið geti klárast (Forseti hringir.) fyrir páska á þessu þingi og þjóðin geti fengið að segja sitt um þetta mikilsverða málefni í sumar. Sjálfstæðisflokkurinn beitti klækjabrögðum og reyndi (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun Alþingis um þetta mál.