140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem hér hefur verið sagt af hv. þingmönnum, það er óvanalegt að fara fram á atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Ferill málsins allur er óvanalegur og ég verð að segja eins og er, og lái mér hver sem vill, að sá rökstuðningur sem hefur verið fluttur fram fyrir þeim spurningum sem hér var voru ræddar í gær er ekki bara takmarkaður í greinargerð, hann er enginn.

Ég verð að segja líka að mér finnst framsetning málsins af hálfu hv. nefndar ekki boðleg. Það er ekkert skrýtið þótt menn velti því í það minnsta fyrir sér hvort nefndin sé fær um að fást við þetta mál, (Gripið fram í: Meiri hlutinn.) meiri hluti nefndarinnar, afsakið. Ég bendi á það, frú forseti, að enginn hv. þingmaður Vinstri grænna tók þátt í þessari umræðu í gær. Úr því má ábyggilega lesa ákveðin skilaboð. Ég held nefnilega að í þeim flokki hafi margir verulegar (Forseti hringir.) áhyggjur af þessu og hafi ekki viljað taka þátt í jafnilla undirbúinni umræðu og hér fór fram í gær.