140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Ari Matthíasson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér á hinu háa Alþingi er einn misskilningur furðulega lífseigur. Hann er sá að enginn geti lifað mannsæmandi lífi í þessu landi nema þjóðin sé gerð að verkamönnum erlendra stórfyrirtækja. Þannig lýsti hv. þm. Bjarni Benediktsson því sjónarmiði í gær að allt væri stopp í atvinnuuppbyggingu ef stjórnvöld hefðu ekki forgöngu um frekari virkjanir fyrir orkufrekan iðnað og að raforkan væri skuldbundin erlendum málmbræðslum til áratuga. Ekki hefur þó verið sýnt fram á að það fé sem flýtur til ríkissjóðs frá erlendum stórfyrirtækjum sé meiri háttar búbót. Þannig eru þjóðartekjur okkar af álbræðslunni ekki aðrar en daglaun verkamanna sem þar vinna. Samkvæmt nýlegum tölum vinna liðlega 2.000 manns í álverum, eða 1,1% vinnuafls á Íslandi.

Sú speki að stóriðja sé málið og mannlíf á Íslandi þrífist ekki án hennar er því talsvert fjarri öllum sannleik, meira að segja hálfsannleik þeirra sem eru í stanslausu stríði gegn náttúru Íslands. Eða hver getur haldið því fram að lífsskilyrði séu betri og hagur manna þar sem stóriðjuverkalýður býr en annars staðar þar sem menn eru stóriðjulausir? (TÞH: Allar hagtölur sýna það.) Samt keppast sumir alþingismenn enn við að lýsa yfir stuðningi við áframhaldandi stóriðjustefnu og að ríkið hafi um það forgöngu í anda ríkiskapítalisma Sovétríkjanna. Það eru jafnvel menn sem stundum þykjast vera talsmenn einkaframkvæmdar. Sú einkaframkvæmd er þó alltaf háð þeim annmörkum að þrífast aðeins í skjóli einokunar, fákeppni eða sérgæða. Þessir beygja sig alls ekki fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og enn síður fyrir rökum trúarinnar, og leysa vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem kemur málinu ekki við en verða skelfingu lostnir og setur hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins. Þessir stunda málþóf og klækjastjórnmál. Hversu margar greinar þarf að skrifa og hversu marga hagfræðiútreikninga þarf að sýna til að sannfæra menn um að það voru meðal annars stóriðjustefnan og klækjastjórnmál gamla Íslands sem komu (Forseti hringir.) okkur á botninn? [Kliður í þingsal].