140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég óska hv. þm. Ara Matthíassyni til hamingju með ræðu hans hér í dag, er athyglisvert að benda á þá staðreynd að um 2 þúsund manns starfa í íslenskum álverum en tæplega 1 þúsund manns starfa í íslenskri kvikmyndagerð. Það er einmitt stóriðja framtíðarinnar. Nóg um það að sinni.

Fyrr undir þessum liðum kom hv. þingmaður inn á mikilvægi þess að skapa rými til að taka á þeim stóru málum sem koma eiga á dagskrá þingsins á næstu vikum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Það er mikil vinna fram undan og ljóst að þingið verður að horfa til þess að fjölga þingdögum til þess að þingmenn geti unnið og talað og farið „grundigt“ ofan í þau mál sem fram undan eru. Við eigum eftir að ræða nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og fram undan er rammaáætlun um vernd og nýtingu orkusvæða sem er mikilvæg fyrir ólíka hagsmuni í þessum þingsal, hvort sem menn aðhyllast frekari virkjun eða frekari verndun. Fyrir alla hagsmunaaðila er mikilvægt að vinnu við gerð rammaáætlunar verði lokið á þessu þingi.

Sömuleiðis er mikilvægt fyrir okkur að vinna áfram í málefnum skuldugra heimila. Þess vegna tel ég fýsilegt fyrir þingið að íhuga það alvarlega að fjölga þingdögum og lengja hér þingdaga svo við getum farið mjög ítarlega yfir þessi mál og fleiri sem fram undan eru. Við þurfum að skapa rými til að fjalla ítarlega um þau brýnu hagsmunamál sem við þurfum að taka á hér á Alþingi Íslendinga.