140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af einu ákveðnu máli en get ekki orða bundist vegna orða síðasta þingmanns. Í fyrsta lagi er lágmark að þeir sem krefjast næturfundar hverju sinni geri þá ráð fyrir því að sitja út fundinn. (Gripið fram í.) Í öðru lagi skulu menn átta sig á því að það er eðlilegt að þeir sem vilja verja stjórnarskrána og (Gripið fram í.) vanda undirbúning nýti sér þær heimildir sem meðal annars þingsköp kveða á um.

Ég vil líka geta þess að flokkur hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, Samfylkingin, (Gripið fram í.) var á móti — (Gripið fram í: Geirsson.) (Gripið fram í: Lúðvíks Geirssonar.) Geirssonar, já, var á móti … það liggur við að ég sakni hins. Það má líka segja að þetta sé flokkurinn sem var á móti tillögu okkar sjálfstæðismanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknarferlið að ESB. Þetta er sami flokkurinn og var á móti tillögu okkar sjálfstæðismanna um þjóðaratkvæðagreiðslu í Icesave 1, (Gripið fram í.) Icesave 2 og Icesave 3. Þetta er flokkurinn sem hefur verið á móti því fram til þessa að leggja stórmálin fyrir þjóðina. Það eina sem við sjálfstæðismenn viljum er að það náist þverpólitísk samstaða og að við vöndum til verka, að á okkur verið hlustað.

Ég hefði svo gjarnan viljað (Gripið fram í.) að hv. þingmaður hefði verið með sama ákafa í því máli sem ég kvaddi mér hér hljóðs um. Það tengist St. Jósefsspítala. Í byrjun vikunnar var lítil frétt á Bylgjunni þar sem kom meðal annars fram um legsigs- og legnámsaðgerðir — þetta tengist konum og kannski er það þess vegna ekki merkilegt í hugum sumra þingmanna hér inni — að biðtíminn eftir þeim hefur lengst verulega, úr níu vikum upp í 39 vikur. Af hverju? Af því að St. Jósefsspítala var lokað. Flokkur sem hv. þingmaður tilheyrir beitti sér fyrir því að St. Jósefsspítala var lokað. Það leiddi til verri þjónustu við konur, verri þjónustu (Forseti hringir.) til lengri tíma fyrir fjölskyldur í landinu.