140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst aðeins nefna að hér hefur að minnsta kosti einn þingmaður nefnt það að fjölga þurfi þingdögum. Ég bendi hv. þingmanni og ríkisstjórn hans á að síðan í haust hefur legið fyrir hvað þingdagar eru margir þannig að ef ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem þykjast vera að stýra þessu landi hafa verið mislagðar hendur í að koma málum í gegnum sína þingflokka eða græja málin er það þeim að kenna, ekki okkur þingmönnum sem erum hér og bíðum eftir að ræða þessi mál. Það að bæta við þingdögum er einhvers staðar í hugarheimi einhverra ákveðinna aðila í þinginu.

Ég vil koma inn á eitt annað mál sem er búið að nefna hér, málefni heimilanna. Hér hafa þingmenn nefnt vandræðaganginn sem virðist vera í efnahags- og viðskiptanefnd um það að ná samstöðu um hvernig eigi að bregðast við verðtryggingu og þessum hlutum sem við flest hér viljum leysa. Ég vil í því sambandi benda á að í landinu er stjórnarmeirihluti sem hefur í hendi sér bæði að afnema verðtrygginguna og fara í almenna leiðréttingu á lánum heimilanna. Þessi stjórnarmeirihluti, þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna, vill ekki gera þetta. Hann vill ekki afnema verðtrygginguna eða taka hana úr sambandi, hvað þá leiðrétta lán heimilanna, annars væri þessi meiri hluti sem stjórnar landinu væntanlega búinn að kynna sér og fallast á eitthvað af þeim fjölmörgu tillögum sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fyrir þingið og lagt á borð ríkisstjórnarinnar, meira að segja afhent ráðherra við ríkisstjórnarfundaborðið til að reyna að koma réttum skilaboðum áleiðis. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Valdið og tækifærið til að taka þessi mál í sínar hendur er hjá meiri hluta Samfylkingar og Vinstri grænna. Það eru þeir þingflokkar sem ekki vilja taka á þessum málum fyrir heimilin í landinu. (Gripið fram í: Rétt.)