140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur undanfarna rúma tvo mánuði fjallað um leiðir til að styrkja réttarstöðu neytenda í kjölfar nýjasta gengislánadóms Hæstaréttar. Nefndin hefur haft að leiðarljósi að auðvelda einstaklingum með ólögmæt gengistryggð lán að leita réttar síns, m.a. með því að lengja frest til að höfða skaðabótamál fyrir þá sem hafa misst eigur sínar með ólögmætum hætti og sömuleiðis að veita heimild til gjafsóknar vegna prófmála sem tengjast umræddum lánum. Það hefur verið prýðileg sátt í þessari nefnd um meðferð þessa máls og hefur verið unnið að því að nefndin flytti frumvarp til að fullnægja fyrrgreindum markmiðum. Þess vegna vakti það óskipta athygli okkar í nefndinni að í byrjun vikunnar brá svo við að nefndarmaður úr röðum efnahags- og viðskiptanefndar lagði til að málið yrði tekið úr þessum farvegi, úr höndum nefndarinnar, og vísað til hæstv. innanríkisráðherra. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þá stöðu málsins að nefndin skyldi ekki bera gæfu til að klára málið í fullri sátt eins og allar forsendur voru til. Ég tel að hún hafi verið að vinna mjög góða vinnu og mikilvæga í ágætri sátt og sé ekkert tilefni til að rjúfa þann feril með því að vísa málinu í allt annan farveg sem, eins og fram hefur komið í nefndinni, gæti hreinlega orðið til þess að spilla því að málið fengi framgang í þinginu og kæmist til framkvæmda.

Alþingi er löggjafarvaldið. Einn mikilvægasti lærdómur sem við þurfum að draga af samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fyrir hrun er einmitt að Alþingi láti framkvæmdarvaldið ekki segja sér fyrir verkum. Við eigum að hafa hér frumkvæði að lagasetningu þegar tilefni er til eins og sannarlega á við í þessu máli þar sem verið er að leita leiða til að styrkja réttarstöðu neytenda.

Ég vil hins vegar að það komi fram að meiri hluti nefndarinnar ætlar að halda sínu striki þótt svona hafi farið og mun leggja málið fram með fulltingi annarra þingmanna í þessum sal sem vilja tryggja skjótan framgang þeirrar réttarbótar sem ég nefndi í upphafi.