140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[15:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eigi spurði hv. þingmaður hver væri starfandi sjávarútvegsráðherra af því að þingmaðurinn vissi það ekki, (ÓN: Er þingmaðurinn skyggn?) heldur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins að reyna að halda áfram þeirri teygingar- og klækjapólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundað hér undanfarin dægur, daga, vikur og mánuði — þó að undanskildum hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem alltaf kemur heiðarlega og hreint fram og stendur fyrir (Gripið fram í.) sinn málstað lengst til hægri í Sjálfstæðisflokknum af mikilli djörfung og karlmennsku. Ég hrósa hv. þingmanni fyrir það. (JónG: Þér tókst að ná mér.)

Það er sum sé Katrín Jakobsdóttir, hæstv. starfandi sjávarútvegsráðherra, sem ég vænti að mæli fyrir þessum frumvörpum. Ég fagna því, ég tel að það sé góður kostur, skær stjarna úr ráðherraliði okkar. Það að hún geri það og ekki sjávarútvegsráðherrann sem nú er staddur í Kanada í erindum þjóðarinnar hefur líka það (Forseti hringir.) tákn með sér að það er ríkisstjórnin öll sem flytur þetta frumvarp. Það eru stjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) og áhugamenn um framfarir í sjávarútvegi hér á þinginu (Forseti hringir.) og um allt samfélagið (Forseti hringir.) sem takast á við það að (Forseti hringir.) flytja þetta (Forseti hringir.) frumvarp í (Forseti hringir.) þessum sal.