140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[15:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég verð að gera athugasemdir við tvennt hér, í fyrsta lagi það hvernig hér hefur verið rætt um síðasta þingfund og það hvernig honum lauk. Ég get ekki séð að það hafi valdið stjórnarmeirihlutanum nokkru einasta tjóni að hér var kallaður saman fundur í morgun til að framkvæma þá atkvæðagreiðslu sem með réttu átti að fara fram samkvæmt þingsköpum.

Síðan er málið sem er hér á dagskrá í dag, virðulegi forseti, og stafar úr sjávarútvegsráðuneytinu, mjög umfangsmikið mál upp á fleiri tugi blaðsíðna og reyndar eru fleiri en eitt mál á dagskránni. Það segir mikla sögu að málið sé lagt fram og fyrir því mælt af öðrum ráðherra en þeim sem hefur undirbúið það. Það verður að hafa það í huga að hér er 1. umr. fram undan. Það er á þessu stigi málsins sem ráðherrann á að vera í þinginu og mæla fyrir því. Eftir þá umræðu sem hér fer fram er málið (Forseti hringir.) komið á forræði þingsins. Það gefst þannig ekkert annað tækifæri fyrir ráðherrann til að tala sínu máli. Ég mótmæli því sem hér er haldið fram að það skipti engu hver mæli fyrir frumvörpum, (Forseti hringir.) að hvaða ráðherra sem er í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) geti gert það.