140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta að þegar um er að ræða, tvímælalaust, eitthvert stærsta mál sem snertir málefnasvið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og hefur að ég hygg verið eitt meginverkefni núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra síðustu vikurnar að minnsta kosti, að umræðan skuli fara fram í fjarveru hans. Ég hef skilning á því að hæstv. ráðherra þurfi vegna embættisstarfa sinna að fara til annarra landa og sitja þar fundi.

En ég spyr hæstv. forseta hvaða nauðsyn beri til að þessi umræða fari fram í dag þegar hæstv. ráðherra er fjarverandi og þegar raunar obbinn af hæstv. atvinnumálanefnd sem á að fá málið til meðferðar er líka fjarverandi.