140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hygg að full ástæða sé til að minna á það hér að þegar ríkisstjórnin gerði þá breytingu um síðustu áramót að fela einum og sama ráðherranum hvert ráðuneytið á fætur öðru, þá var það misreiknað hjá hæstv. forsætisráðherra að það kynni ekki að hafa afleiðingar. Þær eru einmitt að birtast okkur hér í dag þar sem efnahagsráðherrann þurfti að vera í Kanada en sjávarútvegsráðherrann þurfti að vera á Alþingi. Það er það sem er að gerast í dag. Það er auðvitað á ábyrgð forsætisráðherra og ábyrgð ríkisstjórnarinnar að haga því með þeim hætti. (Gripið fram í: … menntamálaráðherra.)

Það er alveg sama hversu oft ráðherrar eða þingmenn í stjórnarliðinu koma hér upp, þá blasir það við öllum og menn tala þvert gegn betri vitund sem halda öðru fram, að eðlilegt er og sjálfsagt og það kallar á sérstakar skýringar ef það er ekki þannig að ráðherra sem fer fyrir málaflokknum og leggur mál fram á Alþingi mæli fyrir þeim hér í 1. umr. Þannig hefur það alltaf verið. Þannig mun það alltaf verða. Og það sem á að gerast hér í dag (Forseti hringir.) er undantekning frá meginreglunni. Þess vegna er eðlilegt að menn kalli eftir (Forseti hringir.) skýringum á því.