140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir skelegga og afdráttarlausa fundarstjórn. Vegna þess máls sem hér er sérstaklega tekið fram hygg ég að það sé rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er síður en svo fordæmalaust að ráðherrar mæli fyrir málum sem aðrir ráðherrar hafa undirbúið. Það gerist iðulega. Það gerist iðulega hér í þinginu að menn hlaupi í skarðið hver fyrir annan. Varaformenn nefnda svara fyrir formenn og varaformenn þingflokka og flokka svara fyrir formenn o.s.frv.

Ég kvaddi mér þó sérstaklega hljóðs til að ítreka það vegna þess sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar um stjórnskipulega ábyrgð. Stjórnskipuleg ábyrgð á málaflokki er hjá þeim ráðherra sem fer með þann málaflokk í það og það skiptið. Það á að sjálfsögðu líka við þegar menn gegna ráðherrastörfum fyrir annan ráðherra, þá fara þeir með stjórnskipulega ábyrgð í þeim málaflokki á meðan þeir gegna því starfi. Alþingi er fullsæmt af því að hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, sem jafnframt er varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, (Forseti hringir.) starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mæli fyrir því máli sem hér er á dagskrá í dag.