140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að koma hingað upp og lýsa undrun yfir því að sjá að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að mæla fyrir þessu máli. Ég var í símanum frammi og kem svo hingað í salinn og heyri þá hvað hér gengur á. Ég hefði haldið að hæstv. ráðherra ætti að mæla fyrir sínu helsta máli. Og þá er ég ekki að gera neitt lítið úr hinum ágæta og langvinsælasta ráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur, þannig að það sé nú sagt, ég er alls ekki að gera lítið úr þeim ágæta ráðherra og þingmanni.

Ég hlýt að spyrja hvaða verkefni það er sem er svona mikilvægt í útlöndum, ef það er þannig að ráðherrann er í útlöndum, (Gripið fram í: Í Kanada.) í Kanada, hann er kannski að ná í dollara fyrir okkur? [Hlátur í þingsal.] Hann er kannski að ná í dollara fyrir okkur. Ég velti því fyrir mér hvað er svona mikilvægt og hvað er svona miklu mikilvægara en að mæla hér fyrir sjávarútvegsfrumvarpinu. (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera eitthvert verkefni sem skiptir (Gripið fram í.) miklu máli. Það hlýtur líka að vekja upp þá spurningu: Hvers vegna var þá ekki hægt að senda einhvern annan góðan ráðherra til Kanada?