140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli starfandi sjávarútvegsráðherra á því að allir sem hafa tjáð sig um málið fram til þessa hafa lýst gríðarlega miklum efasemdum um það. Það gerðu líka þeir sem fengu málið til umsagnar úr ráðuneytinu áður en það var lagt fram á Alþingi. Daði Már Kristófersson og Þóroddur Bjarnason gerðu athugasemdir áður en málið var lagt fram, m.a. um að byggðaaðgerðir frumvarpsins væru ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt væri að. Mig langar að bera undir ráðherrann hvort ekki hafi verið talið tilefni til að bregðast við athugasemdum sem fram voru komnar áður en málið var lagt fram á þinginu.

Í annan stað hvort ráðherrann telji eðlilegt að skattur sem lagður er á þá sem nýta takmarkaðar auðlindir sé umfram auðlindarentuna, þ.e. umfram þann hagnað sem myndast á grundvelli nýtingar á takmarkaðri auðlind. (Forseti hringir.)

Ég mun (Forseti hringir.) koma að fleiri spurningum í síðara andsvari.