140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar eðlilegt, af því að eitt meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja þjóðinni arð af nýtingu auðlindarinnar, að þetta grundvallaratriði sé rætt við þessa umræðu, þ.e. hvort eðlilegt sé að lagður sé skattur á annað en það sem er umfram venjulegan hagnað í atvinnurekstri á Íslandi. Auðlindarenta myndast þegar menn mynda umframhagnað á grundvelli þess að þeir hafa aðgang að takmarkaðri auðlind, hagnað umfram það sem myndast í öðrum atvinnugreinum. Það er sá hagnaður sem að jafnaði er talað um að skattleggja þegar rætt er um skattlagningu og auðlindarentu. Í þessu frumvarpi og því sem því fylgir hér og verður næst á dagskrá tel ég að verið sé að ganga lengra.

Mig langar að biðja ráðherrann um að tala til þeirra sem hafa keypt sig inn í greinina á undanförnum árum, hafa skuldsett sig til að kaupa aflaheimildir og eru í vandræðum með að standa í skilum með lán sín. Mig langar til að biðja ráðherrann um að tala til þeirra og útskýra fyrir þeim hvers vegna þeir ættu að sætta sig við það að aflahlutdeild þeirra verði núna skert til þess að einhverjir aðrir — aðrir nýliðar — geti komist inn í greinina.