140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla þá að nýta tækifærið og ræða aðeins um framsalið. Það liggur fyrir að mínu viti að með 20 ára nýtingarleyfum með skýru framlengingarákvæði er útgerðarmönnum gert kleift að skipuleggja rekstur sinn til langs tíma. Þeir hafa rúman tíma til að fjárfesta í skipum, tækjum, tólum og fasteignum fyrir rekstur sinn. Með því að veita handhöfum hlutdeildarinnar framsalsmöguleika til 20 ára hafa þeir líka nægan tíma til að kaupa eða selja hlutdeild til að hámarka nýtingu á fjármunum bundnum í fyrirtækjunum. Það breytist eftir þennan 20 ára tíma, framsalsmöguleikinn hverfur og úthlutaður nýtingarsamningur styttist þá í hvert sinn sem hann er endurnýjaður. Þetta teljum við skipta gríðarlegu máli til þess að koma í veg fyrir það sem stundum hefur verið kallað brask. Við teljum að þessi aðferð sé ekki hamlandi við nauðsynlegar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja í sjávarútvegi, til að mynda með kynslóðaskiptum eða sölu á hlutdeild.