140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram heilmikil gagnrýni á það. Hér hefur verið nefnt að það er talið að byggðaaðgerðin nái ólíklega þeim markmiðum sem lagt er upp með, það séu íþyngjandi vankantar fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, að þetta muni lækka laun sjómanna og draga úr eðlilegri hagræðingu í greininni. Svo virðist sem málið hafi verið unnið á síðustu metrunum. Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta fyrir sér, er ekki eðlilegt að hennar mati að í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem hér koma fram láti atvinnuveganefnd þingsins fara fram ítarlega hagfræðiúttekt eins og gert var fyrir tæpu ári á því frumvarpi sem þá var lagt fram þar sem metin eru áhrif frumvarpsins og afleiðingar fyrir sjávarútveginn og samfélagið?