140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræddi hér sérstaklega um byggðaáhrifin sem ég kom lítillega að áðan í andsvari og í ræðu minni. Þetta eru breytingar sem verið er að leggja til á þeim vettvangi. Ég ítreka að við höfum oft rætt núverandi fyrirkomulag byggðakvóta og annarra ívilnana í kerfinu og ekki verið á eitt sátt um hvernig til hefur tekist. Þar hefur verið kallað eftir breytingum.

Hér er lögð til leið sem snýst um leigupotta sem hægt er að ráðstafa svæðisbundið. Ég hef sannfæringu fyrir því að þarna geti falist breyting til bóta fyrir byggðirnar en hins vegar tek ég að sjálfsögðu undir með hv. þingmanni í því að nefndin á að gefa sér góðan tíma til að fara yfir þessi mál, kalla til þá sérfræðinga sem hún telur nauðsynlega og kafa ofan í frumvarpið. Til þess er leikurinn gerður, það skiptir miklu máli að þingið gefi sér tíma til að ræða þessi mál.