140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum þessi svör og er sáttur við að menn sjái að staða málsins býður upp á að það þurfi að fara fram mjög ítarleg skoðun sem verður tímafrek og alveg klárlega kostnaðarsöm miðað við reynslu okkar af fyrri frumvörpum. Það er í mörg horn að líta.

Það eru félagslegir þættir í þessu frumvarpi. Við getum sagt að bent sé á það í þessari greinargerð og gagnrýni á frumvarpið og gagnrýni margra hagsmunaaðila sem fram hefur komið á síðustu dögum að það er heilmikið aukið á þennan félagslega þátt í kerfinu okkar. Á sama tíma segir í markmiðum frumvarpsins að það eigi að hámarka þjóðhagslegan ávinning. Mig langar að heyra örstutt frá hæstv. ráðherra hvort hún telji það samræmast að auka svo mjög þessa félagslegu þætti en á sama tíma hámarka (Forseti hringir.) þjóðhagslegan ávinning af fiskveiðiauðlindinni eins og lagt er upp með. (Forseti hringir.) Erum við ekki að fórna með þessu frumvarpi heilmiklum þjóðhagslegum hagsmunum?