140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer eftir því hvaða augum maður lítur þetta mál. Ég sem tel að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé í raun það mikilvægasta sem nokkurt samfélag þurfi að hafa að leiðarljósi við þróun sína til framtíðar legg á það áherslu að hinn efnahagslegi ávinningur sem og hinn þjóðhagslegi ávinningur þurfi að fara saman með umhverfislegum og samfélagslegum ávinningi. Ég lít svo á að þessi markmið geti ekki bara farið saman heldur hljóti að fara saman ef þau eiga að skila raunverulegum ávinningi.

Vissulega má finna þarna samfélagsleg markmið og ég tel það eðlilegt. Þegar við erum komin á 21. öldina og erum að skipuleggja hvernig við högum auðlindamálum okkar hljótum við að gera það með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi þar sem þessir þrír þættir þurfa að vera í ákveðnu jafnvægi.