140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil segja um þetta sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bendir á, annars vegar þær athugasemdir sem mér finnst hann vísa í sem snúa að hinum ólíku útgerðum, þ.e. útgerðum sem veiða ólíkar tegundir og mismunandi afkomu þeirra. Ég hef kannski ekki skilið hv. þingmann rétt en þarna er horft til þess að þeir sem eiga hlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít þurfa að skila ákveðnum prósentum í hliðarráðstafanir og að þeir sem eiga aðrar tegundir skili minna í hliðarráðstafanir, að það sé það ójafnvægi sem þingmaðurinn vísar í. Það er hins vegar verið að jafna hlutfall milli þessara tegunda sem auðvitað hefur áhrif. Þegar menn jafna hlutföllin breytir það stöðunni til bóta fyrir suma en ekki fyrir aðra.

Ef hv. þingmaður er fyrst og fremst að vísa í hina breytilegu afkomu sjávarútvegsins, að hún hafi verið misjöfn í gegnum árin, hafi núna verið góð og síður þegar þurfti að skerða kvótann, er það auðvitað staðreynd að afkoman er sveiflukennd. Þess vegna miðast hugsunin á bak við veiðigjaldafrumvarpið, sem við ræðum ekki núna heldur síðar, við þessar sveiflur, þ.e. að innheimta veiðigjaldanna taki mið af sveiflunum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort þetta svaraði að einhverju leyti því sem hv. þingmaður spurði um.