140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta svarar reyndar ekki því sem ég spurði um. Tökum dæmi af aðila sem keypti sér aflaheimildir fyrir 100 milljónir árið 2006. Þær voru skertar um 30% árið 2007. Sá aðili skuldsetti sig fyrir þeim kaupum, starfaði innan þess lagaramma sem þá var í gildi. Hvers vegna í ósköpunum er þessi aðili enn þá skertur í stað þess að bæta í það minnsta hluta af þeirri skerðingu næst þegar kemur til aukningar í aflahlutdeildum í staðinn fyrir að láta viðkomandi áfram taka á sig skerðingar? Þetta er það sem ég var að spyrja um.

Hins vegar væri líka forvitnilegt að fá rök fyrir því hvers vegna þeir sem þurfa að taka þátt í bótapottunum þurfa að láta 9,5% af þorski en eingöngu 5,3% af flestum öðrum tegundum, tegundum sem hingað til hafa ekki tekið neinn þátt í að bæta það?