140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aflahlutdeildin sveiflast auðvitað en það er alltaf spurning hvenær eigi þá að grípa tækifærið og breyta lögum, hvort það eigi að gera þegar sjávarútvegurinn stendur vel eins og hann gerir núna eða við hvað við eigum að miða hlutfallið. Hv. þingmaður segir að fólk fari inn í einhvern geira út frá ákveðnu lagaumhverfi en það getur eigi að síður alltaf átt von á því að lögum verði breytt. Ég get eiginlega ekki svarað spurningu hv. þingmanns öðruvísi en svo að það hlýtur alltaf að vera til umræðu. Okkur hlýtur alltaf að vera ljóst að við getum átt von á einhverjum breytingum á lagaumhverfi.

Hvað varðar hitt sem hv. þingmaður nefnir og ég ætlaði að nefna í mínu fyrra andsvari liggur hins vegar fyrir að með þessum breytingum þar sem tegundir leggja mismunandi til hliðar er verið að breyta því þannig að hlutfall þeirra sem hafa átt aðrar tegundir en þorsk, ýsu, ufsa og steinbít hækkar úr 1,3% í 5,3%. Það er verið að jafna stöðu einstakra tegunda í þessu frumvarpi þannig að ég lít svo á að það sé verið að jafna stöðu útgerðaraðila að þessu leyti út frá tegundum.