140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa innleiðingu að málinu og fyrir andsvörin. Ég vil byrja á því að segja að við ræðum hér heildarlöggjöf fyrir okkar mikilvægustu atvinnugrein, nýja heildarlöggjöf, stjórn fiskveiða á Íslandi. Þegar við lítum til baka og skoðum það verklag sem ríkisstjórnir fyrri tíma hafa að jafnaði tileinkað sér við endurskoðun á starfsumhverfi sjávarútvegsins í landinu sjáum við að lögð hefur verið mikil áhersla á þverpólitíska samvinnu og samráð við hagsmunaaðila.

Það er nærtækt að grípa einfaldlega í þessu samhengi frumvörp frá fyrri tímum, eins og frumvarpið sem kom fram á þinginu sem starfaði frá 1989–1990. Í því frumvarpi er langur listi yfir alla þá sem komu að málinu og settu saman nýtt frumvarp fyrir ráðherrann sem hann síðan í framhaldinu lagði fram. Í því frumvarpi er líka að finna bókanir og athugasemdir allra þeirra sem tóku þátt í starfinu og höfðu sínar athugasemdir, en saman varð til frumvarp um nýtt kerfi fyrir stjórn fiskveiða á Íslandi.

Það má svo sem segja þessari ríkisstjórn það til hróss að þannig lagði hún af stað inn í þetta kjörtímabil vegna þess að í september 2010 varð til þessi skýrsla hér, skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Nánast jafnóðum og hún hafði verið gefin út var horfið frá því víðtæka samráði sem þar lá að baki og málið fellt í nýjan farveg.

Það gerðist smám saman. Við sáum frumvörp koma inn í þingið á því haustþingi sem ollu miklum vandræðum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og loks kom fram frumvarp, vorið eftir að skýrslan kom út, sem gekk í raun algerlega í berhögg við meginniðurstöðu nefndarinnar. Það er frumvarpið sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði um áramótin „bílslys ríkisstjórnarinnar“ frá því í fyrra.

Engu að síður hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á þessu kjörtímabili í smærri frumvörpum sem ég ætla ekki að rekja hér. En nú fáum við sem sagt þessi tvö frumvörp, um veiðigjöld annars vegar og hins vegar það sem er hér á dagskrá um stjórn fiskveiða. Þetta frumvarp er ekki bara langt frá tillögum starfshópsins og skýrslu hans, heldur eru hér kynntar til sögunnar algerlega nýjar hugmyndir að því með hvaða hætti stjórn fiskveiða fari best fram.

Í þessu frumvarpi er gengið lengra en almennt hefur verið rætt um og miklu lengra en starfshópurinn taldi að væri eðlilegt og sanngjarnt í því að skerða aflahlutdeild innan kerfisins til að ráðstafa með öðrum hætti utan þess.

Ég ætla að leyfa mér í því sambandi að vísa til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum þar sem segir að breið samstaða hafi verið um það í starfshópnum að það hlutfall sem hafi farið til byggðakvóta, rækju- og skelbóta, línuívilnunar og strandveiða verði áfram hið sama í framtíðinni. Menn muni hins vegar gera breytingar á stóra kerfinu þannig að í stað varanlegrar úthlutunar ættu í framtíðinni að koma nýtingarsamningar.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er það beinlínis markmiðið með þessu frumvarpi að stórauka úthlutanir sem eru utan almenna kerfisins. Ég hef saknað þess í fyrri umræðum um þetta mál og sakna þess nú frá hæstv. sjávarútvegsráðherra að gerð sé einhver lágmarkstilraun til að útskýra það fyrir þeim sem hafa þurft að þola skerðingar á undanförnum árum, þegar við höfum þurft að draga saman í heildaraflanum, hvers vegna þeir eigi ekki að njóta þess þegar stofnarnir taka við sér. Hvers vegna þurfa þeir sem á undanförnum árum hafa keypt sig inn í greinina núna að þola viðbótarskerðingu ofan á það sem þeir hafa áður þurft að þola vegna minnkandi heildarafla? Og þetta eru engar smátölur.

Við getum tekið dæmi af því sem fram hefur komið í fjölmiðlum frá því frumvarpið kom fram. Ég ætla að leyfa mér að vísa í viðtal við Garðar Ólafsson, útgerðarmann í Grímsey, sem segir að verði frumvörpin samþykkt óbreytt þýði það ekkert annað en eignaupptöku. Hann rekur útgerðina Sigurbjörn ehf. sem gerir út þrjá báta. Hann segir að fyrirtækið hafi keypt 230 tonna kvóta fyrir rúmum fimm árum fyrir hálfan milljarð, en aldrei fengið að veiða hann vegna kvótaskerðinga, aldrei fengið að veiða aflann sem keyptur var, kvótann sem keyptur var.

Hvað þýðir frumvarpið fyrir hans útgerð? Hann segir í viðtali við Morgunblaðið:

„Það verða tugir milljóna sem ríkið ætlar að hirða af þessu litla sveitarfélagi. Hér eru allir eyðilagðir yfir þessu, að það sé verið að leggja algjörlega í rúst þennan atvinnuveg sem hefur haldið þjóðinni uppi í gegnum aldirnar. Ég skil ekki þessa sífelldu umræðu um þjóðarsátt. Við sem höfum verið að berjast á sjónum og reyna að skapa gjaldeyri erum sennilega ekki hluti af þjóðinni.“

Það er ágætt að hafa það í huga í þessu samhengi af því svo gjarnan og svo mjög er vísað til landsbyggðarinnar og að allar þessar hliðarráðstafanir séu hugsaðar til þess að taka tillit til stöðu smærri sjávarbyggða víðs vegar um landið að það er einmitt þar sem aflinn er, og allar heimildirnar, í dag því sem næst. Ég tek auðvitað of stórt upp í mig með því að segja allar, en um það bil 90% af aflaheimildunum eru einmitt úti í hinum smærri byggðum.

Það er mjög mikilvægt að horfa til þeirrar umsagnar sem Daði Már Kristófersson og Þóroddur Bjarnason gefa þessu frumvarpi, reyndar eftir að það hafði verið samið, en ekkert tillit tekið til þess sem þeir segja, að það er ekki raunhæft markmið hjá þeim sem smíða löggjöf fyrir sjávarútveginn og stjórn fiskveiða í landinu að ætla öllum byggðum landsins stóran hlut í sjávarútvegi. Það er ekki raunhæft markmið. Þess vegna draga þeir fram þá meginniðurstöðu sína í umsögninni að það sé ólíklegt að markmiðum frumvarpsins verði náð.

Það er ástæða fyrir því að ekki hefur verið talað til þeirra sem hafa verið að kaupa sig inn í kerfið. Hún er sú: Það er engin réttlæting til, engin sanngirni er til sem réttlætir það að gengið sé svona harkalega fram gegn þeim sem nú þegar eru inni í kerfinu til þess eins að hleypa einhverjum öðrum að. Það er sem sagt verið að segja við suma: Við þurfum að koma ykkur frá, draga úr ykkar hlutdeild, við þurfum að koma öðru fólki að.

Þetta er óaðskiljanlegur hluti umræðunnar um það að auka svona við leigupottana eins og verið er að gera í þessu frumvarpi mjög ákveðið og skerða heimildir annars staðar. Skoðum það aðeins hversu langt er gengið í þessu.

Það er sem sagt þannig að í þorski á að skerða um 9,5%. Í ýsu á að skerða 6,9%. (Gripið fram í.) Í ufsanum á að skerða um 7,2% og í steinbít um 9,8%. Það á að gera 5,3% upptæk í öðrum tegundum.

Þetta eru stórar tölur, sérstaklega fyrir þá sem hafa á undanförnum árum og á grundvelli gildandi laga skuldsett sig til að komast inn í greinina og hafa verið tilbúnir að leggja mikið á sig til að skila þeim afla sem þeir hafa haft rétt á að sækja á sjó til landsins og auka þannig verðmætasköpun í landinu. Þetta eru miklar kvaðir.

Frú forseti. Það er fleira að finna í þessu frumvarpi en skerðingar. Hér er mikið gert úr 1. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að tryggja með lögum að þjóðin eigi auðlindina með einhverjum hætti eins og það er orðað í almennri umræðu um þessi mál. En í þeirri umræðu er mjög gagnlegt að hafa í huga að samkvæmt gildandi lögum eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Menn eiga ekki að tala um þessa nýju lagagrein sem er að finna í þessu frumvarpi sem einhverja algjöra nýjung. Þetta er bara áframhald á sama ástandi og gilt hefur. Í raun og veru ætti þessi umræða meira heima í umræðunni sem við höfum verið að taka hér undanfarna daga um breytingar á stjórnarskránni en að slá þessu upp sem einhverjum meiri háttar áfanga í tengslum við þetta frumvarp. Mér finnst þetta vera einhvers konar reykbombur, ég verð að segja það alveg eins og er.

Í frumvarpinu er að finna hugmyndir um það að skila betur en gert hefur verið undanfarin ár arðinum til þjóðarinnar á grundvelli þeirrar stefnumörkunar sem hefur verið hér í lögum í langan tíma. Þótt það sé hluti af umræðunni um hitt málið, um veiðigjöldin, get ég ekki látið hjá líða að nefna það í þessari umræðu að menn eru komnir afar langt frá því sem var grundvöllur skýrslu auðlindanefndarinnar á sínum tíma, og hefur almennt verið viðurkennt hvað varðar sérstaka skattlagningu vegna nýtingar auðlinda hvers konar, þegar horft er á þær hugmyndir sem teflt er fram hér. Það er vegna þess að almennt hefur verið talið sanngjarnt og eðlilegt að skattleggja auðlindarentuna, þ.e. þann viðbótarhagnað sem myndast vegna þess að menn hafa sérstakan aðgang að takmarkaðri auðlind.

Sú útfærsla sem kynnt er samhliða þessu frumvarpi gengur miklu lengra og er komin úr öll samhengi við alla umræðu um eðlilega skattlagningu af auðlindarentunni. Það sést til dæmis á því að í þessu samhengi er talað bæði um sérstakt veiðigjald og almennt veiðigjald. Það verður tækifæri til að fara nánar ofan í þessa hluti síðar þegar við ræðum veiðigjaldafrumvarpið sérstaklega, en í stuttu máli hafa menn reiknað sig niður á það að þetta jafngildi í raun og veru 70% skattlagningu á hagnað útgerðarinnar.

Séu þessir útreikningar réttir, standist þeir skoðun, er ekki annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að menn séu hér á góðri leið með að hanna einhvers konar kerfi fyrir þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar sem ekki bara verður líkt við þjóðnýtingu sjávarútvegsins í landinu, heldur er gengið lengra en menn mundu leyfa sér með því að ríkisvæða einfaldlega allan sjávarútvegsrekstur í landinu. Einkaframtakið á nefnilega að sitja uppi með alla áhættuna, sitja uppi með allt tapið þegar illa gengur og líka borga gjald þegar útgerð er rekin með tapi, á að taka alla áhættuna af áhættufjárfestingunum, sitja uppi með hana, en síðan þegar vel gengur er uppistaðan af afrakstrinum tekin í ríkissjóð. Þetta verður ekki nefnt öðrum nöfnum en ríkisvæðing á hagnaðinum og einkavæðing á tapinu. Það er ekki hægt að horfa á þetta öðrum augum. Séu þessir útreikningar réttir er þetta eina einkunnin sem hægt er að gefa þessari hugmyndafræði.

Í því sambandi er ágætt fyrir okkur að rifja það upp hvernig okkur hefur gengið að fá afrakstur af sjávarútvegsauðlindinni hér í gegnum tíðina allt fram til þess að framsal aflaheimilda var leyft hér. Á árunum 1980–1991 var tap af reglulegri starfsemi í sjávarútvegi, það var einfaldlega þannig. Það var tap og það var frjálsa framsalið sem breytti öllu um að hagræðing náðist í greininni, við náðum að draga úr sóknargetu flotans og samræma sóknargetuna að afrakstursgetu stofnanna. Þannig hefur frá þeim tíma verið hagnaður af reglulegri starfsemi. Það byggir á þeirri hagræðingu sem náðst hefur.

Á fyrri tímum var rætt á Alþingi hvað við ættum að setja mikið af peningum almennings til útgerðarinnar. Nú höfum við miklu skemmtilegra viðfangsefni að ræða hér á Alþingi, sem er það hversu miklu getur útgerðin skilað til almennings. (Forseti hringir.) Þessi umpólun hefur orðið vegna þess að við höfum verið hér með skynsamlegt (Forseti hringir.) sjávarútvegskerfi, skynsamlega stefnu. (Forseti hringir.) Við skulum taka höndum saman um það á Alþingi að viðhalda meginkostum þess kerfis en rústa því ekki.