140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að gera athugasemd við notkun hugtaksins „umframhagnaður“ eins og hv. þingmaður notar það í þessari umræðu. Þegar rekstraraðili, í þessu tilviki sjávarútvegsfyrirtæki, hefur notað rekstrarhagnað sinn til þess að standa undir fjármagnskostnaði annars vegar og afskriftum hins vegar hefur enginn hagnaður myndast. Það er fyrst eftir að greiddur hefur verið fjármagnskostnaður og afskriftir hafa verið teknar með í myndina sem hægt er að byrja að mynda hagnað, en áður en sá hagnaður myndast er gengið út frá því í þessum frumvörpum að 70% af öllu því sem umfram er verði skattlagt. Er þetta þess vegna ekki að lágmarki 70% skattlagning á hagnaðinn? Það verður að gera ráð fyrir því að fyrirtæki eigi fyrir afskriftum og fjármagnskostnaði áður en menn taka upp á því að skattleggja það sem þeir kalla þá umframhagnað. Eða má fyrirtæki í sjávarútvegi ekki hafa nokkurn hagnað yfir höfuð og hver er þá eðlilegur hagnaður? Hvað er eðlilegur hagnaður (Forseti hringir.) annars vegar í huga þingmannsins og hvað er hins vegar umframhagnaður?