140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér fjárfestingar í bílaumboðum og einhverju slíku en ég næ því ekki alveg. Ef þingmaðurinn er að meina að í þessari grein séu einhverjir sem eru að fjárfesta eða nota peningana sem verða til í eitthvað annað og telur eitthvað undarlegt við það vil ég upplýsa þingmanninn um að í flestum atvinnugreinum eru einhverjir sem eflaust er hægt að setja hornin í, hvort sem það er sjávarútvegur, fjármálastarfsemi, bókaútgáfa eða hvað það er.

Auðvitað er þetta landsbyggðarskattur vegna þess að sá arður sem verður til í langflestum þessara fyrirtækja verður eftir heima í héraði. Það er einfaldlega þannig. Ef hv. þingmaður færi til dæmis um í Norðvesturkjördæmi og kynnti sér hvernig staðan er þar mundi þingmaðurinn vita þetta og þekkja þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annað úr því að við erum að tala um skattlagningu á náttúruauðlindir: Telur þingmaðurinn ekki eðlilegt að sömu aðferðir og reglur sem hér er um að ræða eigi við um nýtingu á öðrum náttúruauðlindum?