140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Blómlegur sjávarútvegur stendur sem betur fer undir blómlegri byggð víða í landinu og mun gera það áfram, enda rekstraröryggi hans tryggt og það að hann hefur svigrúm til að greiða allan kostnað og hafa umtalsverðan hagnað áður en hann fer að greiða nokkur frekari gjöld.

En tengt þessari umræðu um byggðirnar get ég svarað hv. þingmanni, og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni í senn, að það er eindregin skoðun mín að við eigum með sama hætti að haga skattlagningu af orkuauðlindunum sem kannski eru ekki síst hér á suðvesturhorninu þar sem verið er að selja mjög mikið. Tekjurnar kæmu þá héðan. Ég held að það sé eðlilegt næsta skref í málinu og að með þeim hætti munum við gæta jafnvægis í þessu, að taka gjöld af þeim auðlindum sem við eigum öll saman, hvort sem það eru orkuauðlindirnar eða fiskurinn í sjónum, alveg eins og við höfum lagt á olíuauðlindirnar sem við ætlum (Forseti hringir.) að nýta hér norður af landinu.