140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Ég vildi bara vekja athygli á einu atriði. Hann rakti stöðu sáttanefndarinnar svokölluðu og taldi að hér væri frumvarp sem gengi í berhögg við þá vinnu sem þar var unnin í þverpólitísku samstarfi. Ég er ekki sammála þeirri túlkun hjá hv. þingmanni vegna þess að ég tel að þetta frumvarp sé í góðum takti við þá vinnu sem unnin var á vettvangi sáttanefndarinnar undir forustu hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar.

Þar lagði til dæmis meiri hlutinn fram þá grunnhugmynd að gera skyldi samninga um nýtingu aflaheimilda, eins og hv. þingmaður kom inn á. Um nýtingarleyfi eins og þau eru hugsuð í þessu frumvarpi gildir að stofni til sama hugsun og gildir um samninga um nýtingu aflaheimilda og þannig er gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað til ríkisins gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.

Í sáttanefndinni var sömuleiðis gert ráð fyrir því að aflaheimildum yrði skipt í potta, að úthlutun nýrra heimilda færi fram á opinberum markaði og að styðjast ætti áfram við aflamarkaðskerfið eins og það er í dag. Ég vildi leggja inn í þessa umræðu að niðurstöðu sáttanefndarinnar sem var skipuð þverpólitískt er að grunni til að finna í þessu frumvarpi. Aukinheldur legg ég áherslu á það að margt hefur gerst á þeim þremur árum frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu var við samningu þessa frumvarps tekið sérstaklega mikið mið af þeim umsögnum sem bárust, bæði frá sáttanefndinni en ekki síður við vinnu þess frumvarps sem leit dagsins ljós fyrir ári eða svo.

Þannig hefur samnings- og samráðsferlið átt sér þriggja ára aðdraganda. Við sjáum afrakstur þess hér og nú og ég tel að vel hafi tekist til með framlagningu þessa frumvarps. Við erum að reyna að mæta ólíkum sjónarmiðum um þessa mikilvægustu auðlind okkar.