140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur einkennt þessa umræðu eilítið í dag að þrátt fyrir að við séum að ræða frumvarp til laga um stjórn fiskveiða hefur umræðan farið inn á veiðigjaldaumræðuna. Það er gott. Ég hefði reyndar kosið að við hefðum rætt þessi frumvörp saman, ég hugsa að það hefði hjálpað umræðunni mikið og gert hana dýpri, en svo fór ekki.

Ég hef rætt við fjölmarga útgerðarmenn á undanförnum árum. Þeir hafa í einkasamtölum lagt áherslu á það að nálgun í veiðigjaldinu ætti að vera sú að þeir fengju að taka frá fyrir kostnaði, fyrir eðlilegri arðsemi af þeim fjárskuldbindingum sem eru í rekstri þeirra og að sú upphæð sem stæði þá eftir væri arður af nýtingu takmarkaðrar auðlindar. Honum ætti svo að skipta á milli þeirra og þjóðarinnar allrar. Það er í raun og veru hugmynd frá útgerðarmönnunum sjálfum sem lítur dagsins ljós í þessu frumvarpi.

Ég legg bara áherslu á það við hv. þm. Jón Gunnarsson að ég tel mikilvægt fyrir okkur, alla þingmenn, að ná sátt um þetta mál og sigla því í höfn. Ég held að við eigum mikið undir því að reyna að linna þeim ófriði sem hefur verið um þessa grein alveg frá því að kvótakerfið var sett á fyrir tæpum 30 árum. Vissulega eru ólík sjónarmið uppi og ólíkir hagsmunir togast á í þessu sambandi. Hagsmunaöflin láta illa núna. Að sjálfsögðu gera þau það, það kæmi manni frekar á óvart ef ekkert heyrðist frá LÍÚ út af hvaða frumvarpi sem liti dagsins ljós. Það á ekki að koma okkur neitt á óvart, en ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur stjórnmálamenn sem og aðra sem koma að þessari grein að nú siglum við þessu máli í höfn þannig að friður skapist um nýtingu auðlindarinnar. Útgerðarmenn geta í rauninni ekki kvartað yfir því ef við bindum það til dæmis í lög að þeir hafi þá að minnsta kosti 15 ára örugga nýtingu á auðlindinni. Þá tryggingu hafa þeir ekki í dag.