140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að lög um stjórn fiskveiða skipta náttúrlega miklu máli bæði fyrir okkur sjálf og einnig í samskiptum við aðrar þjóðir hvað það varðar, enda tekur frumvarpið að hluta til á fiskveiðum utan lögsögu Íslands.

Það er athyglisvert til dæmis varðandi makrílinn, sem er sá fiskur sem er nýgenginn á Íslandsmið, við höfum sótt rétt okkar og höfum hann sem strandríki í þeim efnum, að ekki eru gerðar tillögur í þessu frumvarpi um það hvernig skuli taka á og stýra hér innan lands og innan útgerðarinnar veiðum á nýjum stofnum, þar á meðal makríl.

Sem betur fer var ég búinn að koma á ákveðnu systemi þar sem er þó til mikilla bóta en þarna hefði mér fundist að hefði átt að taka á hvernig menn ætla að stýra veiðum í nýju stofnunum. Það er ekki gert og er einn af stórum ágöllum þessa frumvarps.

Varðandi makrílinn, af því að minnst var sérstaklega á Evrópusambandið, já, ég er mjög stoltur af því að hafa gengið frá reglugerðinni um makríl fyrir áramót og að við höfum staðið þar á okkar rétti í þeim efnum. Ég hef nokkrar áhyggjur af því og hefði sjálfsagt verið ágætt að spyrja starfandi hæstv. sjávarútvegsráðherra hvers vegna aðalsamningamaður Íslands, Tómas H. Heiðar, sem hefur einmitt staðið sig að mínu viti mjög vel bæði í samningum um makríl og líka í hvalveiðunum, er látinn hætta sem aðalsamningamaður núna akkúrat eftir þessa samningalotu í janúar. Hann hefur staðið mjög fast á rétti okkar og er mjög fær maður að mínu viti á þessu sviði.

Mér finnst ekki gott að vita til þess (Forseti hringir.) að hann hafi einmitt við þessi ráðherraskipti og þá ekki síst í sambandi við Evrópusambandsmálin og samninga um makríl verið látinn hætta. (Forseti hringir.) Og ég spyr: Hvers vegna?