140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:55]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan var tekist á um þessi sjónarmið. Mín sjónarmið eru öllum kunn, ég tel að leggja eigi gríðarlega á sig til þess að treysta stöðu sjávarbyggðanna í landinu, bæði hvað varðar réttinn til að veiða og til vinnslu, og skattheimtu eins og til dæmis veiðigjalds. Ég er í sjálfu sér ekki á móti hóflegu veiðigjaldi en þá eiga viðkomandi sjávarbyggðir að fá hluta af því. Það hefur bara verið mín stefna og það hefur verið í þeim frumvörpum sem ég hef lagt fram. Það var samþykkt að hluta til í því frumvarpi sem ég lagði fram hér síðasta vor að hluti rynni til sjávarbyggðanna, reyndar að skötuselspeningarnir rynnu líka til þeirra. Þetta var tekið út úr fjárlögunum þegar þau voru samþykkt. Um það gerði ég ágreining, það er alveg hárrétt.

Þarna er munur á. Ég vil láta sjávarbyggðirnar njóta þess að vera við sjávarauðlindina og þær eiga að njóta þess til að byggja upp sitt samfélag og atvinnu, ekki bara að hugsa um það hversu mikinn skatt er hægt að innheimta í ríkissjóð. Ríkissjóður er óseðjandi eins og við vitum, en sjávarbyggðirnar þurfa að eiga sinn forgangsrétt bæði hvað varðar réttinn til að nýta þessa auðlind og einnig til að njóta afraksturs hennar. Þetta er mín skoðun og mín stefna og við hana stend ég.