140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að það hafi einfaldlega orðið eftirgjöf í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með nýjum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það liggur alveg ljóst fyrir að verið er að gefa eftir gagnvart landsbyggðinni, setja á landsbyggðarskatt, og það skýrir kannski hvers vegna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra treystir sér ekki til að vera við þessa umræðu hér í dag. Hann er kannski ekki tilbúinn til þess að horfast í augu við landsbyggðina með þennan landsbyggðarskatt sem lagður er til hérna í þessum tveimur frumvörpum.

Af því að hv. þingmaður kom inn á skötuselinn áðan og hann vitnaði einnig til kjarasamninga í máli sínu og nefndi það að sjávarútvegsmál og kjarasamningarnir hefðu verið tengd mál á sínum tíma, þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst þingheim um það hver hafi verið afstaða hæstv. forsætisráðherra og hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til skötuselsmálsins á sínum tíma. Það væri fróðlegt að fá það upplýst (Utanrrh: Þú getur líka spurt utanríkisráðherrann.) vegna þess að það var mikið (Forseti hringir.) deiluefni á sínum tíma.