140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skal bara mjög fúslega játað hér og lýst yfir að utanríkisráðherra átti einn stærstan hluta að því af ráðherrum í ríkisstjórn að þetta frumvarp kæmi fram, einmitt skötuselsfrumvarpið, því að hann studdi það afdráttarlaust. Og einnig hér á þingi studdi utanríkisráðherra þetta mál og var af því mikill stuðningur.

Hins vegar er alveg hárrétt að forsætisráðherra og fjármálaráðherra voru ekki hrifnir af þessu enda, eins og ég sagði áðan, töldu Samtök atvinnulífsins það svik á stöðugleikasáttmálanum að leggja þetta fram og þess vegna var ágreiningur um það mál. Ég taldi svo ekki vera og var ekki aðili að neinu slíku samkomulagi við Samtök atvinnulífsins (Gripið fram í.) að ekki mætti leggja fram þetta skötuselsfrumvarp.

Það væri fróðlegt fyrir hv. þingmenn að spyrja: Hvar er þetta skötuselsákvæði núna í því frumvarpi sem hér er verið að leggja fram? Það var einmitt tákn gegnumbrotsins en þess sér hvergi stað í því frumvarpi sem hér er verið (Forseti hringir.) að leggja fram. Og mér þykir það mjög miður (Forseti hringir.) og ég veit að utanríkisráðherra finnst það líka.