140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að biðja um ró í salinn rétt áður en ég hóf ræðu mína og var ekki vanþörf á, en ég vil þó biðja virðulegan forseta að gefa hæstv. utanríkisráðherra sérstakt auga. Mér sýnist hann þegar vera byrjaður að fara á svig við tilmæli hæstv. forseta.

Ég ætlaði að byrja á því að gleðja hæstv. utanríkisráðherra og félaga hans með því að benda á hið jákvæða sem ríkisstjórnarflokkarnir ættu að eða hefðu að minnsta kosti átt að byggja á. Eins og sjá má í sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins viljum við gera talsverðar breytingar og endurbætur á sjávarútvegskerfinu með það að markmiði að hámarka ávinning þjóðarinnar allrar af þeirri auðlind en jafnframt huga að félagslegum þáttum. Við treystum okkur alveg til að viðurkenna að ef menn ætla að huga að slíku þá kunni að felast í því tímabundið óhagræði, að minnsta kosti í excel-skjölunum, en treystum því og teljum okkur geta sýnt fram á að þegar á heildina er litið og til lengri tíma muni það að huga að slíkum þáttum einnig skila sér í meiri ávinningi fyrir alla.

Það skiptir máli hvernig það er gert. Þess vegna vorum við eina ferðina enn tilbúin til að gefa ríkisstjórninni séns, sérstaklega eftir að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að hún ætlaði að huga að tillögum framsóknarmanna, en því miður urðum við fyrir vonbrigðum eina ferðina enn þegar kom í ljós að þetta mál hafði verið unnið algerlega án tillits til áhrifanna af því, án þess að reiknuð hefðu verið áhrifin af frumvarpinu áður en það var lagt fram. Kannski var það of mikil bjartsýni, hafandi séð hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum undanfarin ár, en samt hélt maður að eftir reynsluna af fyrri tilraunum til að kollvarpa sjávarútvegskerfinu hefðu menn lært eitthvað og mundu láta reikna út áhrifin af tillögunum, en nei, sú varð ekki raunin. Komið er með enn eina tillöguna byggða á sandi og í rauninni verra en það því að margt í þessu er ekki aðeins til þess fallið að renna út í sandinn heldur beinlínis mjög skaðlegt. Til að nýta það mikla tækifæri sem var til að ná víðtækri sátt og samstöðu í þessu máli og huga í alvöru að hinum snjöllu lausnum okkar framsóknarmanna er kastað fram frumvarpi þar sem ekki er einu sinni búið að reikna hvaða áhrif það komi til með að hafa.

Umræðurnar snúast um breytingar á kerfi sem ég held að menn ættu að viðurkenna að er ekki alslæmt. Það er reyndar svolítið skrýtið að sitja með mörgum þingmönnum á fundum með fulltrúum Evrópusambandsins, en slíkir fundir eru allmargir núna á meðan Ísland er í umsóknarferlinu, og hlusta á fulltrúa ESB lýsa því að það sem Ísland hafi kannski helst að bjóða Evrópusambandinu sé besta sjávarútvegskerfi í heimi. Þá sér maður þingmenn stjórnarliðsins kinka kolli og brosa og gleðjast yfir þessu klappi á kollinn en fara svo hingað í ræðustól og í viðtöl og tala um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið eins og einhverja allsherjarskelfingu. En þau ummæli eru kannski bara ætluð til heimabrúks, eins og hæstv. utanríkisráðherra segir stundum þegar erlendir menn segja eitthvað sem honum er ekki að skapi. Við þurfum kannski að fara að gera ráð fyrir því að eitthvað sem hæstv. utanríkisráðherra segir hér sé bara ætlað til heimabrúks.

Það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum stuðst við undanfarna áratugi kom til vegna þess að íslenskur sjávarútvegur og raunar þjóðin öll var í verulegum vandræðum. Menn höfðu veitt allt of mikið en þrátt fyrir það, þrátt fyrir að menn hafi veitt til að mynda hátt í 500 þús. tonn af þorski á ári á tímabili, var sjávarútvegurinn á sama tíma rekinn með viðvarandi halla og ekki bara með halla heldur voru vandamálin slík að ríkið þurfti hvað eftir annað að grípa inn í með björgunaraðgerðum, með beinum styrkjum, með því að yfirtaka fyrirtæki eða með því að fella gengi krónunnar. Allt kostaði þetta íslenskan almenning gríðarlegar upphæðir og skerti lífskjör á Íslandi á tímum þegar menn veiddu miklu meira en nú.

Svo tókst að búa til kerfi sem hefur þó skilað því að þrátt fyrir mikinn samdrátt í veiðum, þrátt fyrir að þorskaflinn hafi til dæmis farið úr 500 þús. tonnum niður í 160–170 þús. tonn, er sjávarútvegurinn ekki baggi á samfélaginu heldur skilar þjóðarbúinu verulegum tekjum. En þá vilja menn meira. Það er allt í lagi að velta því fyrir sér hvort hægt sé að bæta kerfið þannig að það skili enn meiru til samfélagsins alls en þá hlýtur að vera grundvallaratriði að eyðileggja ekki kerfið þannig að það hætti að skila samfélaginu ávinningi og verði jafnvel baggi á því eins og það var áður fyrr og eins og það er því miður í flestum Evrópuríkjum, í Evrópusambandinu, fyrirheitna landinu þar sem sjávarútvegur er ríkisstyrktur, þar sem skattgreiðendur þurfa að borga fyrir það að halda sjávarútveginum gangandi. Hér hefur þó þetta kerfi skilað því að nú telja menn það mikið til skiptanna að hægt sé að ná meiru úr sjávarútveginum. Hvernig er það fjármagn til komið? Það er til komið með kerfinu sem stjórnarliðar hafa reynt að kaupa sér vinsældir út á og hallmæla þrátt fyrir að hafa sjálfir, sumir hverjir að minnsta kosti eins og hæstv. forsætisráðherra, komið að því að setja það á. En nú hentar eitthvað annað, nú er eitthvað annað vinsælt svo að hæstv. forsætisráðherra þykist ekkert kannast við aðkomu sína að þessu máli eins og öðrum stórum málum. Ætli menn viti til dæmis almennt hver afstaða hæstv. núverandi forsætisráðherra var til Kárahnjúkavirkjunar sem nú malar gull fyrir Ísland, eins og ég held að hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra hafi einhvern tíma sagt?

En aftur að sjávarútvegsmálunum. Ég kom inn á það áðan að ég hefði orðið fyrir vonbrigðum þrátt fyrir allt, af því að alltaf vill maður vona, að sjá að ríkisstjórnin hefði enn og aftur farið þá leið að leggja fram frumvarp þar sem ekki hefði verið hugað að heildaráhrifum, ekki hefði einu sinni verið hugað að því hvort fyrirtæki í greininni gætu starfað áfram eftir lögunum. Nú er það að koma betur og betur í ljós að að minnsta kosti stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja gæti ekki starfað áfram ef þetta frumvarp yrði samþykkt. Og hvaða fyrirtæki eru það? Það eru skuldsettustu fyrirtækin, þau sem hafa reynt að koma inn í greinina og byggja sig upp. Reyndar er ein af ástæðunum sem nefnd er fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram sú að menn vilji auka á nýliðun en þá er það gert með frumvarpi sem ræðst sérstaklega á þau fyrirtæki sem eru nýliðar í greininni. Þetta kemur frá ríkisstjórn sem talaði um að vinna bug á skuldavandanum. Þar hefur lítið gerst almennt en í sjávarútvegi virðist hreinlega eiga að gera út af við skuldsettustu fyrirtækin. Hannað er kerfi og samið frumvarp til laga sem er þess eðlis að það komi skuldsettum fyrirtækjum verst, komi þeim á kaldan klaka eins og mér sýnist menn hafa reiknað út nú þegar og það óháðir fagmenn, en til slíkra manna leitar þessi ríkisstjórn sjaldnast.

Í þessari umræðu hefur aðeins verið komið inn á það hvernig hæstv. forsætisráðherra og raunar aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni talar um fólk sem starfar í greininni. Það er ekki að undra að menn skuli gera það að umtalsefni. Telur hæstv. forsætisráðherra að fólk sem rekur fyrirtæki í sjávarútvegi og þá kannski sérstaklega fólk sem rekur fyrirtæki vel í sjávarútvegi sé vont fólk? Það mætti halda það af því hvernig hæstv. ráðherra talar um þetta fólk. Orðræðan minnir einna helst á orðræðu millistríðsáranna í stjórnmálum. [Kliður í þingsal.] Það er talað um sjávarútvegsbótagreifa og … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn og aðra í hliðarsölum að gefa hljóð í sal.)

Ég var búinn að biðja virðulegan forseta að hafa gætur á hæstv. utanríkisráðherra og þá stökk hann úr sæti sínu og fór að valda usla í hliðarsal. Hæstv. ráðherra gerir allt til að koma í veg fyrir að umræða um þetta mál fái að eiga sér stað, (Gripið fram í.) að við fáum að skiptast á skoðunum. (Gripið fram í.)

(Forseti (RR): Hv. þingmaður hefur orðið um fiskveiðistjórnarkerfið.)

Virðulegi forseti. Ég var að tala um orðræðuna og hvernig hæstv. forsætisráðherra og raunar sumir aðrir ráðherrar tala um fólk sem starfar í þessari grein og notar til þess yfirlýsingar sem minna á öfgahreyfingar, sósíalískar öfgahreyfingar millistríðsáranna, enda hefur þessi ríkisstjórn tileinkað sér í mjög mörgu stefnu þess tímabils og þá um leið þau rök sem á þeim tíma voru notuð.

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi eru nefnilega mörg hver frábær fyrirtæki, vel rekin fyrirtæki sem skila þjóðarbúinu verulegum ávinningi og ekki bara í gegnum veiðarnar og sölu á fiski því að hliðargreinarnar, greinar sem tengjast sjávarútvegi, ekki hvað síst hátæknigreinar, eru háðar því að hægt sé að reka hagkvæman sjávarútveg á Íslandi. Ég held að hæstv. forsætisráðherra eða ríkisstjórnin öll hefði gott af því að fara eins og einu sinni í heimsókn í íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar, sjá þá tækni sem þar er nýtt, að mjög miklu leyti íslenska tækni, allt frá framleiðslukerfum og færiböndum að tölvu- og hugbúnaði, tækni og skipulagi sem skilar meiru fyrir þessa auðlind okkar Íslendinga en menn fá líklega nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Menn eru sem sagt farnir að reka hér hagkvæmasta og arðbærasta sjávarútveg í heimi og því er sjávarútvegurinn ekki lengur baggi á þjóðinni heldur orðinn uppspretta tekna og nýsköpunar.

Í staðinn fyrir að fagna þessu og hvetja til enn frekari uppbyggingar í greininni og öllum þeim fjölmörgu greinum sem njóta góðs af sjávarútveginum er talað um sérhagsmunaöfl. Þetta er mjög hvimleiður ávani, sérstaklega hjá Samfylkingunni, að skilgreina allar stéttir eða flestar stéttir og hina ýmsu hópa samfélagsins sem sérhagsmunaöfl sem hljóti hvert og eitt að vera að berjast bara fyrir hagsmunum sínum á óheiðarlegan hátt. Samfylkingin verður að fara að gera sér grein fyrir því að samfélag er samvinnuverkefni, [Hlátur í þingsal.] samvinnuverkefni ólíkra stétta. Það þýðir ekki að ætla að reyna að hafa allt af bændum og leggja bændastéttina í rúst í von um að fá aðeins ódýrari ost og ætla að taka allt af sjávarútveginum í von um að græða það árið en uppgötva svo næsta ár að greinin er hrunin og orðin baggi á ríkinu en ekki gullgerðarvél, svo ég vitni aftur í hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegsráðherra og sitthvað fleira.

Menn verða að gera sér grein fyrir því að við þurfum að vinna saman í þessu samfélagi og setja lög og reglur sem tryggja að út úr því samstarfi komi sem mest fyrir alla. Þannig farnast okkur öllum best. Mynduð var heil sáttanefnd einmitt um það að reyna að hanna eitthvað slíkt sem gekk bara vel þangað til það hræðilegasta sem gat gerst gerðist, að mati hæstv. forsætisráðherra. Það stefndi í að nefndin næði niðurstöðu um framtíðartímamótasátt í sjávarútvegi. Til þess mátti hæstv. forsætisráðherra ekki hugsa því hún, eins og þessi ríkisstjórn, treystir á að hafa þetta mál eins og önnur óleyst, óleyst deilumál til að nýta sér í áróðursskyni. Þá var fljótlega gert út af við sáttanefndina sem núverandi hæstv. velferðarráðherra stýrði.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna hreint magnaða ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þar sem hann lýsti því einmitt hvernig vinnubrögðin hafa verið í þessari ríkisstjórn og útskýrði fyrir manni hvernig það gerist að sama ríkisstjórnin skilar aftur og aftur hreint út sagt skelfilegum frumvörpum, frumvörpum sem standast enga skoðun, hvernig það gerist að ríkisstjórnin lærir ekki af reynslunni. Hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra fór yfir þetta allt og útskýrði það sem hann kallaði bellibrögð, bellibrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar sem hugsa að því er virðist ekki um neitt nema eigin völd og að gera þau sem mest en gera lítið og raunar ekkert með samráð og samstarf og árangur. Í þessu eins og svo mörgu öðru virðist því miður löngu orðið ljóst að til að ná fram breytingum til að gera hlutina betri, til að nýta tækifærin sem Ísland hefur, þurfum við nýja ríkisstjórn.