140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og með svo margt sem frá þessari ríkisstjórn kemur þá liggja gallarnir ekki aðeins í hinu eiginlega inntaki tillagnanna eða frumvarpanna heldur í því hversu mikla óvissu það skapar. Þetta er svo sannarlega dæmi um það. Við sjáum það nú þegar á umræðunni sem átt hefur sér stað um þetta. Menn eru enn að reyna að átta sig á því hvaða áhrif þetta hefur, eru búnir að gera sér grein fyrir því að þau eru slæm, ýmist talin mjög slæm eða hræðilega slæm, en hvernig áhrif þetta komi til með að hafa til lengri tíma litið hafa stjórnarliðar ekki getað útskýrt. Þetta er því miður til þess fallið að auka enn á óvissuna í þessari grein og ekkert heldur meira aftur af fjárfestingu en óvissa. Pólitísk óvissa er í raun stærsta vandamál Íslands nú til dags ásamt skuldabyrðinni. Skuldirnar og pólitíska óvissan er það sem heldur aftur af þessu landi. Ef við fengjum meiri vissu um framtíðina, ef menn vissu hverju við ættum von á (Forseti hringir.) væru mjög margir tilbúnir að leggja hönd á árar við að byggja upp.