140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er von að spurt sé enda er mjög erfitt að koma þessu tvennu heim og saman. En ég held, eins og ég nefndi í ræðunni, að menn líti svo á að yfirlýsingarnar um sjávarútveg heima séu fyrst og fremst ætlaðar til heimabrúks. Ég held nefnilega að í stjórnarflokkunum séu nokkrir þingmenn sem vita að kerfið hefur sína kosti þó að væntanlega séu þeir sammála mér um að það megi bæta það og laga þar ýmislegt. En ég held að í stjórnarliðinu sé fólk sem veit að það hefur ýmsa kosti og veit innst inni að allar þessar yfirlýsingar um nánast illsku fólks sem starfar í sjávarútvegi séu ekki réttar. Menn telja bara að þetta sé líklegt til vinsælda.

Eins og við höfum séð í umræðunni á þinginu að undanförnu, og reyndar allt of mikið undanfarin ár, þá eru allt of margir í stjórnarliðinu tilbúnir til að segja hvað sem er ef þeir telja það líklegt til vinsælda.